Beint á efni síðunnar

Umsjón með þráðlausu neti

Þráðlaus staðarnet (WLAN) eru afar hagkvæm leið heimila við að tengjast Netinu. Tengingin fer gegnum örbylgjumerki aðgangs punkts (Access Point) sem er oftast innbyggður í netbeini (Router). Hægt er að flakka með tölvurnar snúrulaust milli herbergja eða jafnvel út í garð. Örbylgjumerkin geta borist út fyrir íbúðarhús og lóðir í allt að 50-100 metra fjarlægð. Sá böggull fylgir skammrifi að íbúar í náliggjandi íbúðum geta villst inn á þráðlaus staðarnet nágranna síns. Mesta hættan er þó sú að tölvuþrjótar leiti markvisst uppi örbylgjumerki frá aðgangs punktinum. Þeir geta hlerað vissa aðgangslykla inn á þráðlausa netið og brotið lélega dulkóðunarlykla þess. Þá geta þeir tengst þráðlausa netinu í leyfisleysi, hlerað samskipti og framið ýmsan óskunda á Netinu. Öll notkun gegnum þráðlaust net verður rakin til IP-númers eiganda þráðlausa netsins jafnvel þótt hann eigi ekki hlut að máli. Í slíkum tilfellum getur hann lent í þeirri sérkennilegu stöðu að þurfa að afsanna óæskilegt athæfi. Ýmislegt er hægt að gera til að torvelda tölvuþrjótum að komast inn á þráðlaus staðarnet heimilanna án heimildar.


Við mælum eindregið með notendur kanni hjá þjónustuaðila sínum hvort eldveggur í netbeini sé ekki virkur og vandlega stilltur, eins og honum ber að afhenda hann skv.3. lið í 22. gr. í reglum Póst- og fjarskiptastofnunar. - Hið sama gildir um góðar öryggisráðstafanir í þráðlausum aðgangs punkti netbeinisins.

Góð ráð
  • Hugleiddu að taka þráðlausa aðgangs punktinn úr sambandi þegar hann er ekki notkun, t.d. yfir dag eða nótt
  • Ef þú stillir og setur sjálfur upp aðgangs punktinn, breyttu þá sjálfgefnu aðgangsorði í vel valið aðgangsorð
  • Við uppsetninguna breyttu sjálfgefnu SSID auðkenni aðgangspunktsins
  • Með dulkóðun er hægt að gera gögn ólæsileg fyrir þá sem hafa ekki lykil til að afrugla þau. WEP dulkóðunarstaðallinn hefur verið algengastur en er nú talinn úreltur.  Betra er að nota WPA eða WPA2 dulkóðunarstaðlana. WPA2 veitir bestu hlerunarvörnina og mælum við eindregið með honum. Ef netbeinirinn (routerinn) er gamall er ástæða til að athuga hvernig hann er stilltur.
  • Við uppsetninguna hugleiddu að nota MAC vistfangasíun í aðgangs punktinum til að styrkja kerfið enn frekar. Þetta krefst þess að skrá MAC vistföng þráðlausu netkortanna inn í þráðlausa aðgangspunktinn
  • Veldu góðan stað fyrir aðgangs punktinn. Endurkast frá veggjum getur valdið "dauðum punktum"
  • Staðsettu þráðlausa aðgangspunktinn ekki upp við heimilistæki, því þau geta truflað örbylgjumerkið.
  • Ef þú ert í vafa um eitthvað af ofangreindu hafðu þá samband við netþjónustuaðilann þinn og fáðu aðstoð og upplýsingar.
  • Hugaðu vel að öllum þáttum áður en þú tengist heitum reit út í bæ
Leita