Beint á efni síðunnar

Góð ráð

Góð ráð er stuðla að áhyggjulausri netnotkun

Ef "bílbeltin" eru ekki notuð koma þau að engu gagni. Flestir "ökumenn" vita líka hvað ber að hafa í huga til að komast hjá óhöppum. Sama á að gilda um tölvunotkun. Um leið og tölvan hefur verið tengd við Netið, er notandinn kominn út í "umferðina". Hann og aðrir verða að hafa ákveðnar reglur í heiðri til að forðast óhöpp og misnotkun. Þú losnar við allskonar óþægindi með tillitssemi og aðgætni.
  • Ekki vinna á vélinni yfirleitt sem stjórnandi (administrator), heldur sem venjulegur notandi (Standard User). Spilliforrit eiga greiðari aðgang að tölvunni gegnum stjórnandann.
  • Veldu ætið gott lykilorð og láttu þau aldrei uppi. - Ígrundaðu vel hvað gæti gerst ef ókunnugur kæmist inn undir þínu nafni.
  • Ef tilboð á Netinu hljómar of vel til að vera satt, þá er það líklega ekki satt. Forðastu jafnframt að smella á hvers konar netvísanir sem koma þér spánskt fyrir sjónir.
  • Ekki gefa upp netfangið þitt til ókunnugra. Notaðu auka netfang sem má skipta um ef ruslpóstur fer að berast. Ekki opna tölvupóst frá óþekktum aðilum með skrítin tölvupóstföng, né tölvupóst frá þekktum aðila ef pósturinn virðist undarlegur. Ekki opna þau fylgiskjöl í tölvupósti sem þú baðst ekki um eða virðast furðuleg. Gefðu aldrei upp viðkvæmar upplýsingar skv. fyrirmælum í tölvupósti, s.s. kreditkortanúmer eða aðrar persónuupplýsingar.
  • Gættu alltaf varkárni ef þú hleður niður skrám af Netinu, t.d. eru deilisíður (P2P) þekktar smitleiðir fyrir veirur og aðra óáran.
  • Taktu reglulega öryggisafrit af einkagögnum, svo sem fjölskyldumyndum, og geymdu á öruggum stað
  • Gættu varkárni í notkun netbanka og við önnur netviðskipti. Skoðaðu reglulega reikningsyfirlit og fylgstu með að þar séu ekki færslur sem þú kannast ekki við. Lokaðu vafra alfarið strax að lokinni notkun þar sem peningar og viðkvæmar upplýsingar koma fram. Veikleikar í óuppfærðum forritum eins og Flash spilurum, PDF lesurum og Java forritum, eru oft leiðir Trójuhesta sem miða að fjársvikum inn í einkatölvur. Afar mikilvægt er að setja inn uppfærslur þessara forrita um leið og þær eru í boði.
  • Uppfærðu stýrikerfið reglulega, svo og vafra og veiruvarnir. Notaðu alltaf eldveggi og öflugar varnir gegn spilliforritum. Uppfærðu þetta reglulega svo og önnur forrit.
Leita